ÍBV vann sannfærandi 27:14-sigur á FH í Hafnarfirðinum í Olísdeild kvenna í handknattleik í dag. Lítið var skorað á fyrstu mínútum leiksins en Eyjakonur sigu að lokum fram úr og unnu örugglega.
Staðan var orðin 15:8 í hálfleik og áttu Eyjakonur eftir að bæta í. Lina Cardell og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoruðu fimm mörk hver fyrir gestina og þær Ásta Björt Júlíusdóttir og Sunna Jónsdóttir fjögur. Þá átti Darja Zecevic magnaða innkomu í mark ÍBV, hún varði 10 af 13 skotum sem hún fékk á sig. Með sigrinum fer ÍBV upp í sjö stig en er áfram í 5. sæti.
FH er áfram á botninum án stiga eftir sjö leiki. Emilía Ósk Steinarsdóttir var markahæst heimakvenna með fjögur en þær Andrea Valdimarsdóttir og Fanney Þóra Þórsdóttir skoruðu þrjú.