Haukar áttu ekki í miklum vandræðum með að vinna Þór, 33:22, í Olísdeild karla í handbolta í dag.
Jafnræði var með liðunum framan af og var staðan 7:7 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Þá tóku Haukar við sér og var staðan í leikhléi 14:10, Haukum í vil.
Haukar bættu jafnt og þétt í forskotið eftir því sem leið á seinni hálfleikin og að lokum munaði ellefu mörkum á liðunum.
Orri Freyr Þorkelsson skoraði átta mörk fyrir Hauka og Darri Aronsson fimm. Ihor Kopyshynskyi skoraði sex mörk fyrir Þór og Karolis Stropus gerði fimm mörk.
Með sigrinum fóru Haukar upp í átta stig og upp að hlið ÍBV, Vals og FH í jafnri toppbaráttu, en Afturelding er í toppsætinu með níu stig. Þór er í næstneðsta sæti með tvö stig.