„Liðsheildin getur gert ansi mikið“

Andri Snær Stefánsson er að gera góða hluti með KA/Þór.
Andri Snær Stefánsson er að gera góða hluti með KA/Þór. Ljósmynd/KA/Þór

Andri Snær Stefánsson lyftist vel frá jörðinni eftir að hans konur í KA/Þór höfðu unnið frábæran sigur á Fram í Olísdeildinni í handbolta í dag. Sigur norðankvenna kom þeim í toppsætið en næstu lið eiga öll leik til góða. Andri Snær mátti vera stoltur af liði sínu og hann var kampakátur í viðtali eftir leik. 

Hann var fyrst inntur eftir gengi liðsins eftir áramót. Menn á Akureyri supu hveljur þegar fréttist að Martha Hermannsdóttir yrði ekki með liðinu í leikjunum eftir áramót. Sú blóðtaka hefur ekki enn sést á leik liðsins. 

„Martha er einstakur karakter og gríðarlega mikilvægur leikmaður og fyrirliði liðsins. Við söknum hennar en engu að síður er það þannig að við erum með góða breidd í liðinu og við höfum sýnt það í síðustu leikjum að liðsheildin getur gert ansi mikið hjá KA/Þór.“ 

Það hefur gengið vel hjá ykkur án Mörtu og fjórir leikir eftir að mótið byrjaði á ný hafa skilað sjö stigum og liðið á toppnum í augnablikinu. Hverju þakkar þú þennan góða árangur, og þá sérstaklega eftir að mótið byrjaði aftur? 

„Við höfum bara æft hrikalega vel, alveg frá því í sumar og við nýttum hléið núna mjög vel. Stelpurnar hafa ekkert slakað á og ég verð að hrósa þeim fyrir góðan aga. Egill styrktarþjálfari sá um að halda þeim í góðu líkamlegu formi á meðan við gátum ekki æft handbolta. Við höfum lagt mesta áherslu á að æfa varnarleikinn og hann skilar ansi miklu fyrir okkur. Svo erum við með agaðan og vel slípaðan sóknarleik sem hefur verið góður eftir áramót. Við erum bara með hörkulið.“ 

Í þessum leik sást vel hversu öfluga vörn þið spilið og tapaðir boltar hjá Fram í fyrri hálfleik lögðu ákveðinn grunn að sigri. Framkonur keyrðu bara á kastalamúr. Menn klóra sér í hausnum og spyrja sig hvernig þú og Sigþór Árni séuð að búa til svona svakalega góða vörn. 

Andri Snær lét þessa spurningu ekki koma sér úr jafnvægi. „Eins og ég sagði áðan þá æfum við vörnina mikið og leggjum áherslu á varnarleikinn. Þar gildir ákveðið vinnuplan sem leikmenn fara eftir og það er ákveðinn lykill í því. Þetta snýst um skýrar vinnureglur og aga. Í dag fannst mér ganga vel en jafnframt fannst mér við eiga inni markvörslu sem hefði hjálpað okkur enn meira. Ég er gríðarlega ánægður með vinnuframlagið og orkuna í mínu liði.“ 

Eftir tíu mínútur í seinni hálfleik er forskot ykkar átta mörk og mikil gleði og kapp í liðinu. Fram tekur leikhlé og skorar svo þrjú mörk á stuttum tíma. Það hefur ekkert farið um þig á hliðarlínunni? 

„Nei. Framarar eru með frábært lið og við gátum átt von á góðu áhlaupi frá þeim. Við tókum leikhlé og breyttum í sjö á sex í sókninni og það losaði um stífluna. Við sýndum bara ró og yfirvegun en það er hluti af okkar leik. Það þarf karakter til að gefa aldrei eftir í 60 mínútna leik og ég vil hrósa mínum leikmönnum fyrir það í þessum leik og eins í síðasta leik gegn Val. Þetta eru stelpur sem gefast aldrei upp og hafa keppnisskapið á hreinu. Það þarf að vera þannig í þessari deild. Hún er gríðarlega erfið og allir geta unnið alla þar sem stigin telja drjúgt.“ 

Ein lokaspurning. Þið eruð með einn landsliðsmann innan ykkar raða. Ættu þeir kannski að vera fleiri? 

„Ég get bara sagt það að það eru nokkrar í mínu liði sem hafa spilað virkilega vel í vetur og ég vil, að sjálfsögðu, að þær hafi metnað til að taka næsta skref. Ég hef fulla trú á að það sé hægt ef stelpurnar hafa hugarfarið í lagi og stefna hærra,“ sagði Andri Snær spekingslega að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert