Markvarsla sem fer í sögubækurnar

Andreas Palicka er ein af hetjum Svía sem hafa komist …
Andreas Palicka er ein af hetjum Svía sem hafa komist alla leið í úrslitaleik HM. AFP

Svíar eru komnir í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í handknattleik í Egyptalandi, nokkuð sem fáa hefði grunað fyr­ir mót þar sem fjöldi leik­manna heltiust úr lest­inni af ýms­um ástæðum stuttu áður en liðið hóf keppni. Í úrslitunum mæta Svíar nágrönnum sínum frá Danmörku og freista þess þar að fullkomna öskubuskuævintýrið.

„Ég er búinn að gráta og ég mun gráta aftur,“ sagði tilfinningaríkur Andreas Palicka, einn af markvörðum Svía á mótinu, við sjónvarpsstöðina TV6 eftir undanúrslitaleikinn gegn Frökkum í gær en hann hefur farið á kostum og átti eina ótrúlegustu markvörslu mótsins gegn Frökkum í gær.

Svíar lögðu Frakkland að velli 32:26 og keppast nú sænsku miðlarnir við að rifja upp markvörslu Palicka á síðustu sekúndum fyrri hálfleiks. Gamla sænska markmannskempan Claes Hellgren sparaði ekki stóru orðin er leikurinn var ræddur á sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi. „Þessi markvarsla fer í sögubækurnar, það ætti að prenta hana á frímerki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert