KA/Þór og Fram mættust í Olís-deild kvenna í handbolta í dag í KA-heimilinu á Akureyri. Fyrir leik voru liðin jöfn að stigum í 3. og 4. sæti deildarinnar og mátti búast við hörkuleik. Liðið sem ynni leikinn færi á toppinn um stund.
Fram lék án Steinunnar Björnsdóttur, Stellu Sigurðardóttur og Hildar Þorgeirsdóttur og munar þar um minna. Reynsluboltarnir Martha Hermannsdóttir og Katrín Vilhjálmsdóttir voru ekki með KA/Þór.
Lengi vel var leikurinn jafn og liðin skiptust á að skora. Varnir beggja liða voru öflugar en markvarsla lítil. Um miðjan fyrri hálfleik small vörn heimakvenna saman og varð hreinlega að háum ókleifum múr. Fram komst hvergi og tapaði ótal boltum í atlögum sínum. KA/Þór byggði upp smá forskot og það jókst svo á lokakafla hálfleiksins en staðan var 14:9 í hálfleik. Sólveig Lára Kristjánsdóttir kom sterk inn í leik KA/Þórs og var lykillin í að opna vörn Fram betur. Þrettán tapaðir boltar hjá Fram, bara í fyrri hálfleik, gerðu þeim svo afar erfitt fyrir.
Í seinni hálfleiknum herti KA/Þór tökin á leiknum og jók muninn smám saman. Fram tók leikhlé í stöðunni 21:13 um miðjan hálfleikinn. Í kjölfarið fylgdu þrjú mörk hjá Fram og leikurinn opnaðist. Allt fram á lokakaflann var Fram í eltingaleik og minnkaði munurinn jafnt og þétt en strandaði við þriggja marka muninn. KA/Þór spilaði af skynsemi út leikinn og landaði dísætum 27:23-sigri.
Norðankonur sitja nú í toppsætinu í deildinni um stund en næstu lið eiga leiki til góða.
Vörn KA/Þórs var aðall liðsins og virkaði hún eins og mulningsvél á köflum. Í sóknarleiknum bar Rut Jónsdóttir af og var hún frábær í að opna fyrir félögum sínum og koma boltanum á rétta staði á réttum augnablikum. Línumennirnir Ásdís Guðmundsdóttir og Anna Þyrí Halldórsdóttir voru skæðar og er með ólíkindum að sjá hvernig þær ná að grípa erfiðar og óvæntar sendingar.
Í liði Fram var Ragnheiður Júlíusdóttir best en hún klikkaði ekki á skoti fyrr en undir lok leiks. Gaman var að sjá óreyndari leikmenn koma inn í leikinn þegar Fram þurfti áhlaup á lokakaflanum og nýttu þeir sín tækifæri vel.