„Verðum að koma sterkari í næsta leik“

Stefán Arnarson ræðir við sitt lið.
Stefán Arnarson ræðir við sitt lið. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Kvennalið Fram í handbolta fór til Akureyrar í dag og spilaði gegn KA/Þór í Olís-deildinni. Heimakonur unnu gríðarlega góðan og mikilvægan 27:23-sigur og var lið Fram langt frá sínu besta. Þjálfarinn, Stefán Arnarson, kom í stutt spjall eftir leik.  

Þetta var erfiður leikur í dag og þið lentuð í miklum vandræðum með vörn KA/Þórs. 

„Við bjuggumst við erfiðum leik og spiluðum ekki vel. Við náðum aldrei að spila okkar leik, erum með tólf tapaða bolta í fyrri hálfleik og gott lið KA/Þórs vann þennan leik bara nokkuð sannfærandi.“ 

Þetta er ólíkt því sem var á síðasta tímabili þegar þið unnuð hérna með rúmlega 20 mörkum. 

„KA/Þór er bara gott lið og innkoma Rutar breytir miklu. Þær unnu okkur í Meistarakeppninni og eru ofar í töflunni þannig að þær eru betri en við í dag.“ 

Vörn KA/Þórs var mjög þétt og þið töpuðuð 12 boltum í fyrri hálfleiknum. Þið náðuð að laga það í seinni hálfleiknum en áfram gekk illa að skora. 

„Seinni hálfleikurinn var mun skárri hjá okkur en þó engan veginn nógu góður, hvorki sókn né vörn. Heilt yfir erum við að spila slakan leik og verðum að koma sterkari í næsta leik.“ 

Þið lentuð átta mörkum undir og þú tekur leikhlé á 43. mínútu. Eftir það skoruðuð þið þrjú mörk í röð. Kviknaði ekki neisti til að fá eitthvað út úr leiknum. Það var nægur tími eftir. 

„Við áttum alveg færi á því. Við vorum búin að minnka muninn í fjögur mörk þegar átta mínútur voru eftir. Svo unnum við boltann en töpuðum honum í næstu sókn. Eftir það var þetta erfitt. Spilamennskan í dag var bara þannig að við áttum ekki skilið annað en tap.“ 

Það vantar sterka leikmenn hjá ykkur og Steinunn Björnsdóttir er enn að jafna sig eftir síðasta leik. Á að muna svona mikið um hana? 

„Það er slæmt að missa leikmenn eins og Steinunni, Hildi og Stellu en við eigum samt að geta spilað miklu betur,“ sagði Stefán sallarólegur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert