„Ég er gríðarlega vonsvikin,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir, þjálfari Stjörnunnar, eftir 33:26-tap liðsins gegn Fram í fimmtu umferð úrvalsdeildar kvenna í handknattleik, Olísdeildarinnar, í TM Höllinni í Garðabæ í kvöld.
„Við byrjum leikinn frábærlega og stemningin var virkilega góð í liðinu. Varnarleikurinn var öflugur og sóknarleikurinn líka en svo verður algjört hrun í okkar leik. Við gerum allt of marga tæknifeila, tökum rangar ákvarðanir og fáum mörg mark í bakið.
Við höfum spilað milljón leiki gegn Fram og það er engin ástæða til þess að koðna eitthvað niður á móti þeim. Það má samt alveg segja að við höfum aðeins hörfað gegn þeim og árásargirnin í sóknarleiknum var ekki sú sama og til að byrja með. Við vorum að fara inn í pakkann þeirra og taka erfið skot sem þær ná að blokka skotið nokkuð auðveldlega. Heilt yfir gerðum við þeim auðvelt fyrir.“
Þrátt fyrir tapið í kvöld er Stjarnan með 8 stig í fjórða sæti deildarinnar, tveimur stigum minna en topplið Vals, Fram og KA/Þórs.
„Þetta er jafnasta og skemmtilegasta deild sem maður hefur séð í mörg mörg ár. Það sést best á því að það eru öll lið að tapa stigum gegn hvert öðru og allir leikir eru hættulegir. Þá er einnig búið að fækka leikjunum í deildinni sem þýðir að hver leikur er dýrmætari fyrir vikið. Þess vegna er ég kannski extra svekkt því mér fannst við eiga að geta gert betur en við gerðum í dag.“
Garðbæingar eru með mikið breytt lið frá síðustu leiktíð og Rakel telur sitt lið vera á réttri leið.
„Það hefur verið stígandi í þessu hjá okkur, bæði í síðustu leikjum sem og á æfingum. Þetta tók okkur smá tíma enda erum við með marga nýja leikmenn og vissulega eigum við eitthvað í land en við erum á góðri vegferð eins og fyrstu tuttugu mínútur leiksins sýndu í dag,“ bætti Rakel við í samtali við mbl.is.