Haukar urðu fyrsta liðið til þess að leggja Aftureldingu að velli í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, en liðin mættust að Varmá í Mosfellsbæ í sjöundu umferð deildarinnar í kvöld.
Leiknum lauk með 30:24-sigri Hauka en staðan í hálfleik var 15:13, Aftureldingu í vil.
Hafnfirðingar byrjuðu leikinn illa og voru lengi í gang. Björgvin Páll Gústafsson hélt þeim inn í leiknum með nokkrum góðum vörslum í upphafi leiks. Þeir virtust svo vera að ná undirtökunum í leiknum undir lok fyrri hálfeiks en tókst aftur að missa leikinn frá sér á klaufalegan hátt.
Það var allt annað lið sem mætti til leiks í síðari hálfleik og varnarleikur liðsins var miklu betri. Aron Kristjánsson breytti úr 6-0 vörn í 5-1 vörn og það var lykillinn að sigri Hauka. Eins þá var Aron duglegur að hreyfa við sínu liði og það voru því nánast alltaf ferskir fætur á vellinum í kvöld.
Mosfellingar virkuðu vel gíraðir í upphafi leiks og þrátt fyrir að missa fyrirliða sinn Einar Inga Hrafnsson af velli meiddan, snemma leiks, virtist það ekki riðla leik liðsins neitt sérstaklega mikið. Þá ber að hrósa Aftureldingu fyrir að koma til baka í fyrri hálfleik eftir að hafa lent undir.
Liðið byrjaði hins vegar seinni hálfleikinn illa og átti engin svör gegn 5-1 vörn Hauka. Eftir því sem leið á leikinn fjaraði mikið undan liðinu enda hópurinn þunnskipaður og margir lykilmenn að glíma við meiðsli. Liðið skoraði ekki mark á tíu mínútna kafla í síðari háfleik og það reyndist dýrt.
Haukar eru með góða breidd sem þeir nýta vel. Allir leikmenn liðsins virðast vera með hlutverk sín á hreinu og það eru allir tilbúnir að leggja sitt á vogarskálarnir.
Afturelding var að tapa sínum fyrsta leik á tímabilinu og nú er pressan farin af liðinu. Yngri leikmenn liðsins fá nú tækifæri til þessað láta ljós sitt skína í fjarveru lykilmanna og það er þeirra að grípa það í meiðslahrinunni sem herjar á liðið.
Haukar fara með sigrinum upp í efsta sæti deildarinnar í 10 stig en Afturelding er áfram í öðru sætinu með 9 stig.