Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, var ekki beint himinlifandi með stig sinna manna í Vestmannaeyjum í dag, er liðið sótti bikarmeistara ÍBV heim í Olís-deild karla í handknattleik.
Grótta leiddi stóran hluta leiksins en voru nánast búnir að kasta frá sér sigrinum áður en þeir fengu stigið í raun á silfurfati á síðustu sekúndunum.
„Ég kom hingað til að vinna og mér fannst við spila þannig að við ættum að eiga skilið að vinna leikinn. Þetta er ekki spurning um það, við klúðrum þessu á tveimur köflum, í fyrri hálfleik töpum við kafla 5:0 og í lokin köstum við þessu líka eiginlega frá okkur. Það var einhver lukkudís með okkur undir lokin og við verðum að virða stigið úr því sem komið var,“ sagði Arnar en liðsmenn Gróttu voru virkilega sáttir þegar Andri Þór Helgason skoraði úr vítakasti og jafnaði leikinn.
„Að sjálfsögðu, þegar maður skorar mark á síðustu sekúndunni væri skrýtið að fagna því ekki. Innst inni er ég ekki sáttur, ég hefði viljað vinna, sérstaklega þegar það voru fimm mínútur eftir og við með þennan leik í höndunum. Við verðum að læra af þessu, þetta var ekki fyrstu spennutryllirinn okkar og verður ekki sá síðasti, við þurfum að læra af þessu. Sum lið hefðu brotnað og við sýndum eitthvað í lokin.“
Gróttumenn fara í 7 á 6 þegar 20 mínútur eru liðnar en það virtist hleypa Eyjamönnum inn í leikinn, sem unnu næstu fimmtán mínútur 11:7.
„Þeir fóru í 5 - 1 vörnina sína, þá hikaði sóknin okkar aðeins og við fórum í 7 á 6. Auðvitað viljum við vinna leikina en við erum líka í smá framþróun og viljum spila hitt og þetta og prófa hitt og þetta. Það var þó aðallega 7 á 6 í seinni hálfleik sem hjálpaði okkur ekki, við þurfum að skoða það, þeir fengu nokkur gefins mörk. Þetta voru örugglega 3, 4 eða 5 mörk sem er allt of mikið,“ sagði Arnar en liðið náði þó aftur yfirhöndinni í seinni hálfleik.
„Við vorum heitir, markverðir ÍBV voru ekki á sínum besta degi, með fullri virðingu fyrir þeim. Birgir var að skora helling, Daníel líka og Jóhann í fyrri hálfleik. Við skorum 32 mörk, í síðasta leik fyrir pásuna skoruðum við 17 mörk, í síðasta leik erum við með 18 í fyrri hálfleik. Það má því segja að sóknarleikurinn sé að braggast en það er ekki allt fullkomið í þessu.“
Gróttumenn voru fyrir áramót með tæplega 22 mörk að meðaltali í leik og því kannski að spila öðruvísi en menn bjuggust við í fyrstu tveimur leikjunum eftir pásuna löngu. Liðið hefur skorað 29 og 32 mörk, finnst Arnari liðið vera að spila hraðari bolta núna?
„Það var aldrei okkar upplegg frá upphafi móts að hægja á leikjunum, við gerðum það kannski ósjálfrátt á móti Haukum eða eitthvað. Ég og Maksim höfum aðeins hlegið að þessu, þetta er kannski af því að við skorum svona fá mörk eða erum skynsamari en önnur lið. Við erum núna að keyra meira á liðin og að skora fleiri mörk, við erum að verða betri og betri og spilum hraðar núna.“
Gróttumenn voru nokkrum mörkum yfir þegar fimm mínútur voru eftir en tóku þó ekki leikhlé þrátt fyrir að áhlaup Eyjamanna væri að ágerast, hví ekki?
„Okkur leið frekar vel, við vorum að skora og þeir að klikka. Eftir á að hyggja veit ég ekki hvort það hafði áhrif, maður verður líka að passa að gefa ekki hinu liðinu tækifæri á að breyta í okkar leikhlé. Það var ekki fyrr en það var ein og hálf mínúta eftir að mér fór að líða verr. Reynsluríkari þjálfari hefði örugglega alltaf tekið leikhlé, kannski er það eftir bókinni, en ég er ekki endilega sammála því.“