„Komum andlega flatir inn í leikinn“

Erlingur Richardsson.
Erlingur Richardsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var ekkert alltof ánægður með leik sinna manna er liðið gerði jafntefli við Gróttu í Vestmannaeyjum í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld. 

Hann segir þó að miðað við hvernig leikurinn þróaðist geti hans menn þakkað fyrir að hafa náð einu stigi.

„Miðað við hvernig leikurinn þróaðist þá getum við ekkert verið ósáttir með eitt stig. Við hefðum þó viljað enda lokasóknina með marki eða að ná að halda boltanum lengur. Við misstum boltann og þeir náðu að jafna, þeir voru þó yfir allan leikinn og miðað við hvernig leikurinn þróaðist getum við verið sáttir með þetta eina stig,“ sagði Erlingur.

Andri



„Okkur vantaði að slíta okkur í sundur frá þeim í þau skipti sem við komumst yfir. Ég tek þó ekkert af þeim, þeir börðust og voru mjög klókir, þeir voru að fara í 7 á 6 inn á milli og eru að reyna að spila leikinn. Þeir gerðu þetta að mjög flottum leik,“ sagði Erlingur en hann segir að þeir hafi búist við flestu sem þeir sáu í dag frá Gróttu.

„Við vorum vissir að þeir myndu mæta með þennan varnarleik og við vissum af 7 á 6 sóknarleiknum þeirra.“

Kári Kristján Kristjánsson og Ásgeir Snær Vignisson komu inn í lið ÍBV fyrir leikinn í kvöld og þeir spiluðu mjög vel sóknarlega.

„Það er gott að fá þá til baka, þetta var fyrsti leikurinn hjá Ásgeiri í mjög langan tíma og gerði hann sex mjög góð mörk. Kári gerði líka tíu góð mörk, þeir gerðu heilt yfir mjög vel.“

Eyjamenn eru að fara inn í nokkuð erfitt prógram á næstunni þar sem þeir spila við mörg af sterkustu liðunum.

„Við vissum af því og reyndum að rótera mönnum líka, það er það sem að liðin þurfa að gera til að sleppa við meiðsli, þó að Fannar hafi meiðst undir lokin.“

Hvað klikkaði í síðustu sókn ÍBV?

„Við misstum boltann bara, við fórum held ég í rétta ákvörðun og þetta er smá kasta og grípa í stressinu. Við fengum þarna fimmtán sekúndur og áttum þrjár sendingar eftir, við hefðum getað spilað okkur í gott færi.“

Eyjamenn unnu boltann fyrir síðustu sóknina og var brotið á Hákoni Daða Styrmissyni sem var á leið í hraðaupphlaup, Gróttumenn virtust ekki vera með markmann í markinu en samt var ekki dæmt vítakast, veit Erlingur af hverju?

„Þeir sögðu að markmaðurinn væri kominn í markið, við hljótum að sjá það á myndbandinu, þó að það hafi kannski ekki verið endilega það sem við hefðum viljað. Maður vill líka treysta á að spila boltanum á milli þegar svona lítið er eftir, mér fannst þeir þó mjög fljótir með hendina upp miðað við hvernig línan var. Við fengum einhverjar fimmtán sekúndur áður en við tökum leikhléið, við vorum varla byrjaðir en þetta er einhver lína í þessum handbolta sem ég skil ekki,“ sagði Erlingur að lokum í samtali við mbl.is. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka