Löwen hefndi fyrir stigamissinn í gær

Ýmir Örn Gíslason er lykilmaður í vörn Rhein-Neckar Löwen eins …
Ýmir Örn Gíslason er lykilmaður í vörn Rhein-Neckar Löwen eins og hjá íslenska landsliðinu. AFP

Ýmir Örn Gíslason og samherjar í þýska stórliðinu Rhein-Neckar Löwen unnu sannfærandi sigur á svissneska liðinu Kadetten í Evrópudeildinni í handknattleik í kvöld.

Liðin léku báða leiki sína í riðlakeppninni á heimavelli Kadetten í Schaffhausen en þau skildu þar jöfn í gær, 30:30. Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar lið Kadetten.

Í dag var Löwen hinsvegar mun sterkari aðilinn og sigraði 34:27. Ýmir skoraði eitt mark í leiknum. Uwe Gensheimer var atkvæðamestur með 9 mörk, Niclas Kirkelökke skoraði 7 og Andy Schmid 6.

Löwen er þar með í öruggri stöðu á toppi D-riðils með 9 stig en GOG frá Danmörku er með 6 stig, Trimo Trebnje frá Slóveníu og Kadetten eru með 4 stig, Pelister frá Makedóníu 3 en Tatabánya frá Ungverjalandi hefur tapað öllum sínum leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka