Lykilkonur nálgast endurkomu í Safamýri

Steinunn Björnsdóttir nálgast endurkomu í lið Fram.
Steinunn Björnsdóttir nálgast endurkomu í lið Fram. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Handknattleikskonurnar og Framararnir Hildur Þorgeirsdóttir, Steinunn Björnsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir eru allar að snúa til baka eftir fjarveru.

Þetta staðfesti Stefán Arnarson, þjálfari Fram, í samtali við mbl.is í gær en bæði Hildur og Þórey Rósa hafa verið fjarverandi í síðustu leikjum liðsins.

Þórey Rósa er að koma til baka eftir barnsburð og Hildur er að jafna sig á meiðslum. Þá meiddist fyrirliðinn Steinunn á auga í leik Fram og KA/Þórs á Akureyri í lok janúar.

„Þórey Rósa byrjar vonandi að æfa í febrúar en það þarf svo bara að koma betur í ljós hversu mikið hún verður með okkur,“ sagði Stefán í samtali við mbl.is.

„Steinunn verður væntanlega klár gegn Val eftir eina og hálfa viku og þá vonumst við einnig til þess að Hildur verði klár í slaginn eftir eina til tvær vikur,“ bætti Stefán við.

Fram er með 10 stig í öðru sæti úrvalsdeildar kvenna, Olísdeildarinnar, eftir sjö leiki líkt og Valur og KA/Þór en þær Hildur, Steinunn og Þórey Rósa hafa allar verið í lykilhlutverkum hjá liðinu undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka