„Heilt yfir er ég ánægður með frammistöðu strákanna,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, í samtali við mbl.is eftir 30:24-tap liðsins gegn Haukum í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, að Varmá í Mosfellsbæ í sjöundu umferð deildarinnar í kvöld.
„Það var margt mjög gott í leiknum og svekkjandi að fá ekki meira út úr þessu. Við vorum klaufar í byrjun seinni hálfleiks, fáum þrjár brottvísanir með stuttu millibili og það gerði okkur erfitt fyrir. Við töpuðum þessu niður á þeim kafla og þeir ná að snúa leiknum sér í vil.
Okkur gekk ekki nægilega vel að finna lausnir á 5:1-vörninni þeirra enda einum færri oft á tíðum og ákveðið óöryggi sem fylgdi því. Við náum svo loksins að finna svör á síðustu fimmtán mínútunum en þá var það orðið oft seint.
Heilt yfir þá er ég sáttur með mína menn, það voru margir sem stigu upp, og ég er ánægður með það. Það er auðvitað svekkjandi að missa toppsætið en við höldum ótrauðir áfram og mætum klárir í næsta leik,“ bætti Gunnar við.
Afturelding er með þunnskipaðan hóp þessa dagana og þurfti Gunnar að spila mest megnis á sama liðinu í kvöld.
„Haukar eru með mjög góða breidd sem þeir nýta virkilega vel. Það má alveg skrifa einhvern hluta af þessum tæknifeilum sem við vorum að gera í seinni hálfleik á þreytu enda margir leikmenn liðsins að spila bæði vörn og sókn í sextíu mínútur og það tekur á.
Staðan á leikmannahópnum hefur oft verið betri og við missum Monsa út í kvöld. Hann verður frá í einhvern tíma og það er langt í hina. Við fáum Guðmund Braga [Ásþórsson] inn í næsta leik en annars erum við með unga stráka sem fá stór hlutverk í liðinu á næstu vikum.“
Afturelding ætlaði sér stóra hluti í upphafi tímabils en margir lykilmenn í liðinu eru að glíma við meiðsli.
„Ég get alveg viðurkennt það að markmiðin hafa breyst. Við tókum ákvörðun í hléinu að fara ekki og sækja einhverja útlendinga heldur er markmiðið að byggja upp ungu strákana í félaginu.
Við viljum gefa þeim tækifæri og gera þá að betri handboltamönnum. Þeir þurfa að fá að gera sín mistök en þetta verður frábær reynsla fyrir þá,“ bætti Gunnar við í samtali við mbl.is.