Fram nældi í bæði stigin þegar Þór og Fram mættust í sjöundu umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik, Olísdeildarinnar, í Höllinni á Akureyri í kvöld. Fram sigraði 22:19 og fylgdi þar með eftir góðum sigri gegn Val í síðustu umferð.
Framarar eru með sjö stig eftir sjö leiki en Þórsarar eru næstneðstir með tvö stig, einn sigur og sex töp í fyrstu sex leikjunum.
Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og varð munurinn á liðunum í fyrri hálfleik aldrei meira en eitt mark. Þórsarar voru þó oftar með forystuna í fyrri hálfleik. Sóknarleikur beggja liða var slakur og sem dæmi má nefna að Framarar töpuðu boltanum 12 sinnum í fyrri hálfleik á meðan heimamenn þurftu að hafa mikið fyrir sínum mörkum. staðan í hálfleik. 10:9 fyrir heimamenn.
Þórsarar komust í tveggja marka forystu í upphafi síðari hálfleik en eftir það gengu Framarar á lagið og náðu undirtökunum. Lárus Helgi varði vel í marki Framara og vörnin góð fyrir framan, þó var munurinn aðeins eitt mark þegar um korter var eftir. Þá sigu gestirnir fram úr og unnu að lokum 22:19 sigur.
Igor Kopishinsky var markahæstur Þórsara með 5 mörk. Ólafur Jóhann Magnússon var markahæstur Framara einnig með 5 mörk. Eftir leikinn eru Framarar með 7 stig eftir 7.umferðir, heimamenn eru hins vegar með 2 stig eftir 7 leiki.