Sjöunda umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik, Olísdeildarinnar, er öll leikin í kvöld og byrjar á sannkölluðum stórleik að Varmá í Mosfellsbæ þegar tvö efstu liðin, Afturelding og Haukar, eigast við.
Afturelding er eina taplausa liðið í deildinni og er með 9 stig en Haukar eru með 8 stig. Bæði lið hafa leikið fimm leiki. ÍBV er einnig með 8 stig eftir fimm leiki en Valur og FH eru með 8 stig eftir sex leiki. Staðan getur því breyst umtalsvert með leikjum kvöldsins.
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka um árabil, þjálfar nú lið Aftureldingar og tekst á við gamlan samstarfsmann, Aron Kristjánsson, í toppslagnum í kvöld.
Selfoss og Fram eru með 5 stig en Selfyssingar hafa aðeins leikið fjóra leiki og Framarar sex. KA og Grótta eru með 4 stig, Stjarnan 3, Þór 2 stig og ÍR-ingar eru stigalausir á botninum en þeir taka á móti Stjörnunni í síðasta leik kvöldsins.
Leikirnir eru eftirtaldir:
18.00 Afturelding - Haukar
18.00 ÍBV - Grótta
19.00 Þór Ak. - Fram
19.30 Valur - Selfoss
19.30 FH - KA
20.15 ÍR - Stjarnan