Stjarnan sigraði ÍR í Breiðholtinu í kvöld 27:24 í Olís-deild karla í handknattleik. Stjarnan er með 5 stig eftir sex leiki en ÍR er á botninum án stiga.
Garðbæingar fengu að hafa fyrir sigrinum í kvöld en jafnt var að loknum fyrri hálfleik 11:11. Jafnt var á mörgum tölum í síðari hálfleik og þegar sjö mínútur voru eftir var staðan 23:23. Á lokakaflanum skoraði Stjarnan því fjögur mörk gegn einu marki ÍR-inga.
Leó Snær Pétursson og Brynjar Hólm Grétarsson skoruðu 6 mörk hvor fyrir Stjörnuna. Adam Thorstensen varði 9 skot fyrir Stjörnuna.
Gunnar Valdimar Johnsen og Sveinn Brynjar Agnarsson skoruðu 5 mörk hvor fyrir ÍR. Ólafur Rafn Gíslason varði 12 skot í marki ÍR.