Treystum á vörnina

Sebastian fer yfir málin með sínum mönnum á Akureyri í …
Sebastian fer yfir málin með sínum mönnum á Akureyri í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég er bara gríðarlega ánægður því það er miklu meira en að segja það að koma hingað og spila,“ sagði Sebastian Alexandersson þjálfari Fram, sáttur eftir 22:19 sigur gegn Þór á Akureyri í Olís-deild karla í handknattleik nú fyrr í kvöld. 

„Við spiluðum seinast á fimmtudag, mikinn „hátempó“ leik og mikið líf og okkur líður vel þegar það er mikið líf. Við vissum hvað við vorum að labba inn í hérna. Duttum niður á hælana og vorum ekki líkir sjálfum okkur. Sigur er það eina sem skiptir máli í dag. Þórsararnir spiluðu sinn leik, spiluðu vel úr því sem þeir gera og þeir náðu okkur í að spila sinn bolta og það var vel gert hjá þeim. Þetta var erfitt og við vissum að það yrði erfitt.“

Þrátt fyrir sigurinn gekk sóknarleikur Framara á köflum illa og liðið tapaði boltanum gríðarlega oft. Spurður um það sagði Sebastian:

„Þetta var óþægilega líkt leiknum í Vestmannaeyjum. Því miður er það bara staðan að þegar andstæðingurinn nær að hægja svona mikið á leiknum þá dettur allt „tempó“ úr okkar sóknarleik. Við verðum hikandi og náum ekki að gera almennilegar árásir og menn ná ekki takti á milli manna.“

Lárus Helgi Ólafsson markmaður Fram var í stuði og vörn Framara spilaði vel. Sebastian var að vonum ánægður með það: 

„Varnarleikurinn er það sem við erum að treysta á til þess að ná árangri og gefa okkur tækifæri til að vinna leiki. Mér fannst við sýna frábæra þolinmæði. Við áttum í vandræðum með frábæran línumann Þórsliðsins en annars fannst mér við standa vörnina vel,“ sagði Sebastian í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka