Aron öflugur á gamla heimavellinum - Alexander skoraði

Aron Pálmarsson í leik með Barcelona.
Aron Pálmarsson í leik með Barcelona. AFP

Aron Pálmarsson var í liði Barcelona í kvöld þegar lið hans sótti Veszprém, hans gamla félag, heim til Ungverjalands í Meistaradeild karla í handknattleik og lét að sér kveða.

Aron, sem missti af heimsmeistaramótinu í Egyptalandi vegna meiðsla, var áberandi í sóknarleik Barcelona og skoraði fimm mörk í leiknum. Barcelona vann góðan útisigur, 37:34, í uppgjöri tveggja efstu liða B-riðils og er nú með yfirburðastöðu, fullt hús stiga, eða 18 eftir níu leiki. Veszprém er í öðru sæti með 13 stig, einnig eftir níu leiki.

Alexander Petersson er kominn af stað með sínu nýja liði, Flensburg, og skoraði eitt mark í Meistaradeildinni í kvöld. Þýska liðið vann þá Meshkov Brest á útivelli í Hvíta-Rússlandi, 28:26. Alexander er kominn aftur í raðir Flensburg eftir níu ára fjarveru en hann var leystur undan samningi hjá Rhein-Neckar Löwen í janúar.

Flensburg er efst í A-riðli með 15 stig eftir níu leiki, tveimur stigum á undan Sigvalda Birni Guðjónssyni og samherjum í Kielce frá Póllandi sem eru með 13 stig eftir átta leiki. 

Sigvaldi lék í pólsku deildinni í kvöld þar sem Kielce vann Kwidzyn, 34:24, á útivelli. Íslenski landsliðsmaðurinn skoraði tvö mörk en lið hans er með fullt hús stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka