Rut Arnfjörð Jónsdóttir hefur staðið sig vel með liði KA/Þórs í Olís-deildinni í handbolta í vetur. Í dag var hún í eldlínunni þegar ÍBV kom norður og buðu liðin upp á trylli af bestu gerð. KA/Þór vann eins marks sigur 24:23 og situr sem stendur í toppsæti deildarinnar.
Rut var fengin í stutt spjall eftir leik. Hún var fyrst spurð á muninum á vetrinum í Esbjerg í Danmörku og á Akureyri.
„Mér finnst þetta dásamlegt. Ég heyri alveg að sumar stelpurnar eru orðnar vel þreyttar á öllum þessum snjó en mér finnst þetta ógeðslega skemmtilegt.“
Og að spila hérna með norðankonum?
„Mjög gefandi. Fyrst og fremst þá finnst mér það gefandi. Þetta er öðruvísi en þar sem ég hef verið að spila. Mér finnst ótrúlega gaman að mæta á æfingar og allar stelpurnar eru svo tilbúnar að læra og gera betur. Það er mjög gefandi að vera í kringum svona stelpur.“
Þið hafið gert vel eftir að mótið byrjaði á ný. Hvernig var fyrir þig, sem leikmann, að bíða eftir að mótið hæfist aftur?
„Oft og tíðum var það smá erfitt en við vorum bara duglegar að æfa. Það voru allir spenntir að byrja aftur en alltaf óvissa hvenær það yrði leyft. Það var krefjandi en við tækluðum þetta tímabil vel og vorum bara klárar þegar var byrjað að spila á ný.“
Varnarleikurinn er ykkar aðalsmerki og markvarslan var góð í dag. Þið sýnduð svo mikla seiglu í þessum jafna og erfiða leik.
„Ég er sammála því. Varnarleikurinn í dag var sterkur og Matea var frábær. Mér fannst við í smá basli í byrjun og náðum ekki að klukka þær og sóknarleikurinn var höktandi. Þetta kom allt í seinni hálfleik og þá fannst mér við bara vera frábærar.“
Þessi leikur var afar erfiður fyrir ykkur. ÍBV var líka að spila hörkuvörn og þið voruð undir stóran hluta leiksins. ÍBV komst í 17:13 og virtist vera að herða takið. Þú skorar gríðarmikilvægt mark eftir langa sókn og svo koma bara þrjú mörk og staðan allt í einu 17:17. Svo virtust þið bara ekki ætla að ná að komast yfir. Þið missið samt greinilega aldrei trúna.
„Nei einmitt. Og það er það sem mér finnst svo frábært við þetta lið. Það eru svo margir sterkir karakterar. Það var margt sem gekk ekki hjá okkur en við gáfumst aldrei upp. Fyrri hálfleikurinn var ekki góður hjá okkur og við endum hann á að fá tvö mörk á okkur yfir allan völlinn. Það sýnir bara svo mikinn karakter að missa aldrei trúna. Við höfðum hana allan leikinn og það er bara frábært.“
En eins og í þessum leik þar sem bæði lið spila hörkuvörn og það eru slagsmál allan leikinn. Er þetta ekki bara stórhættulegt?
„Sko, ég hugsa það aldrei þegar ég er að spila en þegar ég horfi á aðra spila og sé klippur úr leikjunum eftir á þá sé ég að oft og tíðum er þetta hættulegt.“
Þú fékkst góðan skell í lok síðasta leiks um síðustu helgi.
„Já, þá fara bara nokkrir dagar í að jafna sig og svo fer maður bara á fullt í næsta leik.“
Og hvernig á svo að eyða frídeginum á morgun. Ætlarðu á skíði?
„Ég treysti mér bara ekki í það. Ég hef ekki verið á skíðum mjög lengi. Það verður bara rólegt. Endurheimt og að ná sér fyrir næsta leik,“ sagði hin stórsnjalla Rut að lokum.