Stjarnan fagnaði sínum þriðja sigri í fjórum leikjum er liðið heimsótti FH í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld. Lokatölur urðu 29:22, Stjörnunni í vil.
Jafnræði var með liðunum á fyrstu tíu mínútunum og var staðan 5:4 þegar þriðjungur var búinn af fyrri hálfleik. Þá náði Stjarnan fínum kafla og var staðan í hálfleik 15:12.
FH var aldrei líklegt til að jafna í seinni hálfleik og var sigurinn öruggur þegar upp var staðið.
Eva Björk Davíðsdóttir átti stórleik fyrir Stjörnuna og skoraði tíu mörk og Katla María Magnúsdóttir skoraði fimm. Fanney Þóra Þórsdóttir lék mjög vel fyrir FH og skoraði tíu mörk og Britney Cots skoraði fimm.