Haukar styrktu stöðuna á toppnum

Framarinn Vilhelm Poulsen býr sig undir að senda inn á …
Framarinn Vilhelm Poulsen býr sig undir að senda inn á línuna á Þorvald Tryggvason í leiknum á Ásvöllum í dag. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Haukar styrktu stöðu sína á toppi úrvalsdeildar karla í handknattleik, Olísdeildarinnar, með sigri á Fram á Ásvöllum í dag, 34:28.

Haukar eru þar með komnir með 12 stig eftir sjö leiki og hafa unnið alla þrjá leikina eftir að Íslandsmótið fór aftur í gang undir lok janúar. Framarar eru með 7 stig eftir sjö leiki og urðu að sætta sig við ósigur eftir tvo góða sigurleiki í röð.

Leikurinn var hnífjafn fyrstu 20 mínúturnar, eða þar til Haukar breyttu stöðunni úr 14:13 í 18:13. Framarar náðu að minnka muninn í 20:17 fyrir hlé.

Framarar byrjuðu seinni hálfleikinn vel og minnkuðu muninn enn frekar, í 21:20, en þá tóku Haukar völdin og voru komnir sjö mörkum yfir, 29:22, þegar ellefu mínútur voru eftir. Sigri Hafnarfjarðarliðsins var ekki ógnað eftir það.

Mörk Hauka: Darri Aronsson 9, Orri Freyr Þorkelsson 8/3, Geir Guðmundsson 6, Halldór Ingi Jónasson 3, Atli Már Báruson 3, Þráinn Orri Jónsson 2, Jón Karl Einarsson 1, Tjörvi Þorgeirsson 1, Ólafur Ægir Ólafsson 1.

Andri Sigmarsson Scheving varði 14/2 skot, 40 prósent, og Björgvin Páll Gústavsson 1.

Mörk Fram: Þorgrímur Smári Ólafsson 5/2, Vilhelm Poulsen 5/1, Stefán Darri Þórsson 4, Andri Már Rúnarsson 3, Þorvaldur Tryggvason 3, Kristófer Dagur Sigurðsson 2, Arnar Snær Magnússon 2, Breki Dagsson 1, Kristinn Hrannar Bjarkason 1.

Lárus Helgi Ólafsson varði 11 skot, 28 prósent, og Róbert Örn Karlsson 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert