Selfoss í engum vandræðum með norðanmenn

Atli Ævar Ingólfsson var markahæstur Selfyssinga í dag.
Atli Ævar Ingólfsson var markahæstur Selfyssinga í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það varð snemma ljóst hvert stefndi þegar ríkjandi Íslandsmeistarar Selfoss tóku á móti Þór Akureyri í Hleðsluhöllinni á Selfossi í dag. Lokatölur urðu 33:24.

Selfoss skoraði fystu tvö mörkin og eftir tíu mínútna leik var munurinn orðinn fjögur mörk, 7-3. Þórsurum var aldrei hleypt inn í leikinn, Selfoss spilaði frábæra vörn og sóknarleikur þeirra vínrauðu var fjölbreyttur og mörkin komu úr öllum áttum.

Á meðan áttu Þórsarar í mestu vandræðum í sókninni en Garðar Már Jónsson, sem var lykilmaður í flestum sóknum Þórs, var duglegur að finna Arnþór Finnsson inni á línunni, og Arnþór var drjúgur í fyrri hálfleik. Munurinn var orðinn átta mörk í hálfleik, 20-12.

Þórsarar voru þó með lífsmarki í upphafi seinni hálfleiks og Arnór Þorri Þorsteinsson skoraði fyrstu þrjú mörkin í seinni hálfleik. Eftir 5-1 áhlaup Þórsara tók Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss, leikhlé og í kjölfarið sýndu Selfyssingar sínar réttu hliðar. Einar Sverrisson skoraði fimm mörk á stuttum tíma og Vilius Rasimas stöðvaði fjórar sóknir Þórsara í röð með góðum vörslum.

Gestirnir eyddu miklu púðri í upphafsmínútur seinni hálfleiks og smátt og smátt fjaraði undan þeim aftur. Þeir mættu líka lemstraðir til leiks þar sem lykilmenn voru fjarverandi en ungir leikmenn stigu upp og fengu frábært tækifæri til að sýna sig gegn ríkjandi Íslandsmeisturum.

Sigur Selfyssinga var fyllilega sanngjarn og gæðamunurinn var augljós. Tryggvi Þórisson og Ragnar Jóhannsson voru sterkir í vörninni hjá Selfyssingum, Atli Ævar var gríðarlega sterkur inni á línunni en Halldór Jóhann fékk líka gott tækifæri til þess að dreifa spiltímanum og margir leikmenn lögðu lóð á vogarskálarnar.

Atli Ævar var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Einar skoraði 5, Hergeir Grímsson 4 og Sveinn Aron Sveinsson 4/2. Vilius Rasimas var frábær í markinu og varði 16 skot. 

Hjá Þórsurum voru Arnþór og Ihor Kopyshynskyi báðir með 5 mörk. Kopyshynskyi fékk ekki margar mínútur í dag en nýtti þær vel. Hafþór Ingi Halldórsson skoraði 4 mörk og var öflugur í vörninni. Arnar Þór Fylkisson átti góðan leik í marki Þórs og varði 14 skot.

Selfoss 33:24 Þór opna loka
60. mín. Ihor Kopyshynskyi (Þór) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert