„Selfossliðið er frábærlega mannað og frábært lið. Við erum þokkalega þunnskipaðir og nokkrir af okkar lykilleikmönnum urðu eftir heima en ég verð að hrósa mínu liði. Ungu strákarnir voru frábærir og þetta er reynsla fyrir þá. Ég er mjög ánægður með þá,“ sagði Halldór Örn Tryggvason, þjálfari Þórs, sem tapaði 24:33 gegn Selfossi á útivelli í Olísdeild karla í handbolta í dag.
Þórður Tandri Ágústsson og Aðalsteinn Ernir Bergþórsson sátu eftir meiddir heima auk Valþórs Atla Garðarssonar sem fór úr axlarlið í leik gegn Val á dögunum. Það munar um minna fyrir Þórsara, sem áttu erfitt uppdráttar gegn ríkjandi Íslandsmeisturum.
„Við byrjuðum seinni hálfleikinn mjög vel og ég fagna því af því að við höfum verið seinir í gang í seinni hálfleik í öllum leikjunum okkar í vetur. Vonandi erum við að ná að bæta þetta. En munurinn var orðinn mikill og tankurinn var nánast tómur eftir þessar upphafsmínútur. Þetta var hraður leikur og Selfyssingarnir gerðu vel. Þeir eru stórir og þungir og sterkir varnarlega og það er erfitt að sækja á þá. En aftur, hrós á ungu strákana mína sem lögðu allt sitt í þetta,“ sagði Halldór Örn að lokum.