„Við vorum góðir í fyrri hálfleik, þar sem við spilum frábæra vörn og hlaupum vel á þá. Við fengum mikið af einföldum mörkum þar. Við lögðum upp með að láta tempóið þeirra ekki stjórna okkar tempói og það tókst,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta sem sigraði Þór 33:24 í Olísdeildinni á Selfossi í dag.
Selfoss hafði mikla yfirburði í fyrri hálfleik en Þórsarar svöruðu fyrir sig í upphafi seinni hálfleiks. Selfyssingar voru þó fljótir að stöðva það áhlaup.
„Ég var ósáttur við fyrstu sjö mínúturnar í seinni hálfleik. Það er ákveðin kúnst að slátra svona leikjum, að fara úr átta-níu marka mun upp í þrettán-fjórtán, og slátra þeim alveg. En menn eru líka meðvitaðir um leikjaálagið og við náðum að rúlla mannskapnum vel í dag og spiluðum öllum leikmönnum, nema Ísak [Gústafssyni] sem er slæmur í öxlinni. Það er gríðarlega mikilvægt að geta notað allan hópinn í þessari leikjatörn sem við erum í núna og ég er bara mjög sáttur við liðið, það er alls ekki auðvelt að spila við Þór og hvað þá að vinna þá með níu mörkum. Það eru ekki mörg lið sem gera það og ég er ánægður með það,“ bætti Halldór við.
Þetta var fyrsti heimaleikur Selfoss í fjóra mánuði og engir áhorfendur voru leyfðir í húsinu. Það hafði þó ekki mikil áhrif á stemninguna í Selfossliðinu.
„Maður er farinn að venjast þessu. Ég er nýkominn af HM þar sem voru heldur engir áhorfendur. Vonandi förum við að fá fólk í húsið, þó að það væru ekki nema 100 eða 200 áhorfendur þá myndi það gera mikið fyrir okkur Selfyssinga. En ég er fyrst og fremst ánægður með að fá að spila og að deildin geti haldið áfram,“ sagði Halldór Jóhann að lokum.