Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmarkvörður í handknattleik hættir með Haukum eftir þetta keppnistímabil en hann ákvað að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi sínum við Hafnarfjarðarfélagið.
Haukar skýrðu frá þessu á heimasíðu sinni í kvöld og þar segir að Björgvin sé í hálfu starfi hjá félaginu sem leikmaður, markvarðaþjálfari og í markaðsstörfum. Hann vilji hins vegar geta haft handboltann sem fullt starf til að sinna fjölskyldunni betur og ætli því að leita á önnur mið.
Haft er eftir Þorgeiri Haraldssyni, formanni handknattleiksdeildar Hauka, að félagið sýni Björgvini fullan skilning.
„Við munum í sameiningu gera allt til að ná sem bestum árangri í vetur og ná okkar markmiðum þannig að við getum kvatt sáttir,“ segir Þorgeir.
Björgvin kveðst afar þakklátur Haukum fyrir þeirra fagmennsku og skilning.
„Þetta var gríðarlega erfið ákvörðum en eitthvað sem ég þarf að gera. Ég og fjölskyldan mín erum með okkar bækistöð inn í Reykjavík. Ég vil geta haft meiri tíma fyrir fjölskylduna og verið í félagi þar sem börnin mín alast upp þannig að við getum átt það saman. Ég er ótrúlega þakklátur Haukum fyrir þeirra fagmennsku og skilning en þessi ákvörðun hefur lítið með Hauka að gera enda hefur félagið ávallt stutt vel við bakið á mér í einu og öllu, en það er einmitt þess vegna sem að þessi ákvörðun var svona erfið. Minn draumur er að geta skilið sáttur við liðið í sumar og að við sem lið verðum þá búnir að koma Haukum á þann stall sem þeir eiga heima á,“ segir Björgvin Páll á heimasíðu Hauka.