FH hafði betur 33:27 þegar Afturelding og FH áttust við í áttundu umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik, Olísdeildinni, að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld.
Bæði lið voru með níu stig í þriðja til sjötta sæti deildarinnar.Afturelding eftir sex leiki og FH eftir sjö leiki. Er FH því með ellefu stig og er liðið stigi á eftir grönnum sínum í Haukum.
FH var marki yfir að loknum fyrri hálfleik 17:16. Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik og lengi fram eftir leik. Þegar um korter var eftir náði FH þriggja marka forskoti og náði að halda Mosfellingum nokkrum mörkum frá sér út leiktímann.
Þýski markvörðurinn Phil Döhler gerði gæfumuninn fyrir FH í síðari hálfleik. Hann varði aðeins tvö skot í fyrri hálfleik en þrettán í síðari hálfleik og þar af tvö vítaköst frá Guðmuni Árna Ólafssyni. Varði þar af leiðandi fimmtán skot í leiknum.
Varnir liðanna voru ekki upp á sitt besta í fyrri hálfleik enda voru þá 33 mörk skoruð. Arnór Freyr Stefánsson gerði þó vel í marki Aftureldingar í fyrri hálfleik en þá var Döhler kaldur í marki í marki FH.
Þegar markvarslan kom hjá FH þá voru leikmenn liðsins duglegir að keyra fram og voru oft snöggir að skora. Þá kom góður taktur í leik FH-inga og þeir fengu örugglega góða tilfinningu fyrir úrslitum leiksins. Þegar þeir náðu smá forskoti seint í leiknum virtust þeir ekki líklegir til að láta það af hendi. Ekki síst þar sem Döhler varði oft frá Mosfellingum í góðum færum.
Á þessum tímapunkti Íslandsmótsins eru þjálfararnir ekki að horfa of mikið í fagurfræði leiksins. FH-ingar eru vafalaust ánægðir með að ná í tvo stig í Mosfellsbæinn og eru örugglega ekki of mikið með hugann við spilamennskuna sjálfa. Eftir langt hlé á mótinu þá er nú leikið mjög ört og það þýðir einfaldlega að frammistaða liðanna mun verða upp og niður. Erfitt er að halda stöðugleika við slíkar aðstæður. FH-ingar virðast vera í góðum málum með leikmannahópinn hjá sér í augnablikinu og þeirra lykilmenn virðast flestir vera heilir heilsu. FH-ingar urðu fyrir miklum vonbrigðum á dögunum þegar þeir misstu unna stöðu niður í jafntefli gegn KA en hafa hrist það af sér. Þeir eru líklegir til að safna stigum á næstunni.
Afturelding er ekki einungis án fimm leikmanna eða svo heldur leikur liðið ekki með örvhentan mann í skyttustöðunni hægra megin. Stórskyttan Birkir Benediktsson sleit jú hásin þegar tímabilið var að hefjast. Ofan á meiðsli nokurra góða leikmanna var Þrándur Gíslason auk þess í leikbanni.
Afturelding lék býsna vel í liðlega 45 mínútur eða svo en þá fóru FH-ingar að síga fram úr. Miðað við mannskap var frammistaðan ekki slæm. 18 ára gamall leikmaður Þorsteinn Leó Gunnarsson vakti athygli í kvöld. Hann var mjög áræðinn og skoraði 8 mörk. Í hans hlut kom að leika fyrir utan hægra megin þótt rétthentur sé og gerði það að mörgu leyti mjög vel. Er það ekki auðvelt hlutskipti þegar leikreynslan er lítil.