„Við hikum ekki við það“

Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar.
Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, hefur þurft að sjá á eftir mörgum leikmönnum á sjúkralistann umtalaða en segir að Mosfellingar séu óhræddir við að gefa þá ungum mönnum tækifæri og muni halda því áfram. 

Afturelding er án margra leikmanna. Birkir Benediktsson, Bergvin Gíslason, Sveinn Andri Sveinsson og Úlfar Páll Monsi Bragason eru meiddir og Þrándur Gíslason var í leikbanni í kvöld þegar Afturelding tapaði fyrir FH 27:33 í Mosfellsbænum í Olís-deildinni í handknattleik.

„Þrándur var í banni og kemur því inn í næsta leik. Monsi gæti verið með eftir um það bil mánuð. Beggi kemur hægt og rólega inn í þetta. Við vitum ekki alveg hvenær en það mun gerast hægt og rólega. Við verðum sterkari hægt og rólega þegar líður á mótið. Á meðan fá ungu strákarnir gríðarlega reynslu og munu koma sterkari út úr þessu,“ sagði Gunnar þegar mbl.is spjallaði við hann í kvöld. Birkir Benediktsson tók léttan þátt í upphitun með liðinu fyrir leikinn með því að skjóta á markið en hann sleit hásin í upphafi tímabilsins. „Birkir verður ekki leikfær næsta mánuðinn. Ég myndi halda að það sé meira en mánuður þar til Birkir getur spilað en styttra en mánuður þar til Beggi getur spilað. Þessir menn eru því ekki að koma inn í þetta á næstu dögum en við einbeitum okkur að þeim mönnum sem eru heilir. Við tókum þá ákvörðun að gefa ungum leikmönnum tækifæri og við munum bara halda því áfram. Við hikum ekki við það.“

Phil Döhler markvörður FH komst í stuð í síðari hálfleik í leiknum í kvöld og varði þá 13/2 skot. Réð hann úrslitum? „Já mér fannst hann vera munurinn á liðunum. Hann lokaði nánast rammanum síðasta kortérið. Þeir refsuðu einnig með hraðaupphlaupum. Á heildina litið var frammistaða okkar ekkert til að skammast sín fyrir. Við náðum að koma okkur í skotfæri sem hann náði að verja. Það er svekkjandi að fá ekkert úr úr þessu en það var margt gott í okkar leik sem hægt er að byggja á,“ sagði Gunnar og sóknir Aftureldingar voru góðar þótt liðið leiki með rétthentan mann í skyttustöðunni hægra megin. 

„Já við skorum mikið og sköpuðum góð færi þar að auki. Auðvitað er hluti af leiknum að nýta færin og þegar það gekk ekki vorum við of seinir til baka í vörnina. Í mótlætinu fjaraði hægt og rólega undan okkur og þeir gengu á lagið,“ sagði Gunnar Magnússon í samtali við mbl.is í Mosfellsbænum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert