Sigvaldi Björn Guðjónsson, landsliðsmaður í handknattleik, mætti stórum hluta portúgalska landsliðsins í fjórða sinn á þessu ári í Meistaradeild Evrópu í kvöld og fagnaði sigri eftir spennuleik.
Sigvaldi skoraði tvö mörk fyrir pólsku meistarana Kielce, bæði undir lok leiksins, þegar þeir sigruðu Porto frá Portúgal, 32:30, á heimavelli. Í liði Porto eru fjölmargir af leikmönnum landsliðs Portúgala sem Ísland mætti þrisvar á átta dögum fyrri hluta janúarmánaðar.
Spænski landsliðsmaðurinn Alex Dusjebaev var í aðalhlutverki hjá Kielce og skoraði 10 mörk.
Með sigrinum er Kielce komið upp fyrir Flensburg og í efsta sæti A-riðils Meistaradeildarinnar en bæði lið eru með 15 stig eftir 9 leiki og nær öruggt að þau fara bæði beint í átta liða úrslit en þangað komast tvö efstu liðin í hvorum riðli keppninnar.