Fannar Þór Friðgeirsson og Sigtryggur Daði Rúnarsson verða ekki með ÍBV í næstu leikjum í Olís-deild karla í handknattleik samkvæmt því sem fram kemur í frétt á Handbolti.is.
Fannar meiddist á hné og segist í samtali við Handbolta.is reikna með því að vera frá keppni í sex vikur. Fannar ætti því að geta komið aftur inn í liðið áður en keppni á Íslandsmótinu lýkur en Fannar segist ákveðinn í að leggja harpixið á hilluna að tímabilinu loknu.
Sigtryggur meiddist á fingri en er ekki fingurbrotinn. Haft er eftir Kristni Guðmundssyni, öðrum þjálfara ÍBV, að Sigtryggur gæti mögulega verið leikfær eftir þrjár vikur eða svo.
ÍBV er með 9 stig í deildinni eins og Afturelding og Selfoss en ÍBV hefur leikið sjö leiki. Haukar, FH og Valur eru fyrir ofan þessi lið.