Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik, hefur gert langtímasamning við Val og gengur í raðir félagsins í sumar.
Valur greinir frá þessu á Facebooksíðu félagsins og þar kemur fram að Björgvin hafi gert fimm ára samning.
Björgvin leikur nú með Haukum og mun ljúka keppnistímabilinu með Haukum en frá því var greint á dögunum að hann væri á förum í sumar.
Björgvin kemur til með að starfa hjá Val ásamt því að spila og segir í tilkynningunni að hann muni koma inn í þjálfarateymi meistaraflokks karla en ekki er það útlistað nánar.
Björgvin verður 36 ára í maí og hefur leikið 240 A-landsleiki. Hér heima hefur Björgvin leikið með HK, Fram, ÍBV og Haukum en hann hefur einnig leikið sem atvinnumaður í Sviss, Þýskalandi og Danmörku.