Ásbjörn Friðriksson hefur framlengt samning sinn við handknattleiksdeild FH.
Þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag en samningurinn er til næstu þriggja ára og gildir út keppnistímabilið 2024.
Ásbjörn hefur verið algjör lykilmaður í liði Hafnfirðinga undanfarin ár og þá hefur hann verið aðstoðarþjálfari liðsins frá því í ágúst 2018.
Hann er einn leikjahæsti leikmaður í sögu FH og á að baki tæplega 400 leiki fyrir félagið í öllum keppnum.
„Ási er ein af skærustu stjörnum FH,“ sagði Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH, í tilefni undirskriftarinnar.
„Hann er algjör goðsögn í Kaplakrika. Þvílíkur leikmaður, fyrirmynd og manneskja.
Við FH-ingar erum alveg í skýjunum eftir undirskrift dagsins,“ bætti formaðurinn við.