KA er komið áfram í 16 liða úrslit Coca Cola-bikars karla í handbolta eftir 26:23-sigur á grönnum sínum í Þór á útivelli í kvöld.
Þórsarar náðu í tvígang þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik, 6:3 og 13:10, en staðan í hálfleik var 14:13 Þórsurum í vil.
KA komst yfir í 16:15 snemma í seinni hálfleik en það var í fyrsta skipti sem KA var með forystu frá því í upphafi leiks.
Áfram var jafnræði með liðunum og var staðan 18:18 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður. KA-menn voru hins vegar sterkari í lokin og fögnuðu sigri.
Árni Bragi Eyjólfsson og Áki Egilsnes skoruðu sjö mörk hvor fyrir KA og Ólafur Gústafsson gerði fjögur. Ihor Kopyshynskyi skoraði níu mörk fyrir Þór og Karolis Stropus átta.