Aron Pálmarsson og samherjar hans í Barcelona unnu góðan 37:33-útisigur á Zagreb í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld.
Aron skoraði þrjú mörk úr jafnmörgum skotum og gaf auk þess fimm stoðsendingar. Barcelona er í toppsæti B-riðils með fullt hús stiga eftir ellefu leiki. Veszprém, fyrrverandi lið Arons, er í öðru sæti með 16 stig.
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði þrjú mörk fyrir Kielce í 30:35-tapi á útivelli gegn Brest. Haukur Þrastarson lék ekki með Kielce vegna meiðsla. Þrátt fyrir tapið er Kielce í toppsæti A-riðils með 15 stig, eins og Flensborg.