Afturelding tryggði sér 26:23-heimasigur á Stjörnunni í Olísdeild karla í handbolta í kvöld með sterkum lokakafla en Mosfellingar skoruðu fjögur síðustu mörkin í spennandi leik.
Stjarnan var með 23:22-forskot þegar fimm mínútur voru til leiksloka en þá fór allt í baklás hjá Stjörnumönnum og Afturelding gekk á lagið.
Stjörnumenn voru með forskot stærstan hluta leiks en það hefur verið erfitt fyrir Garðbæinga að halda í forskot í undanförnum leikjum.
Guðmundur Bragi Ástþórsson var markahæstur hjá Aftureldingu með átta mörk og Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði fimm. Leó Snær Pétursson skoraði sex fyrir Stjörnuna og Björgvin Hólmgeirsson skoraði fimm.
Afturelding er í 2.-3. sæti með ellefu stig, einu stigi frá toppliði Hauka. Stjarnan er með sjö stig í áttunda sæti.