Fram styrkti stöðu sína á toppi Olísdeildar kvenna í handknattleik með sannfærandi 30:22-sigri á Val í toppbaráttuslag í Safamýrinni í dag. Framarar tóku afgerandi forystu snemma leiks og gáfu hana aldrei frá sér.
Framkonur settu tóninn strax í byrjun og skoruðu fjögur fyrstu mörkin og héldu góðri forystu allt til enda. Munurinn varð mestur ellefu mörk í fyrri hálfleik og var staðan 19:8 í hléinu eftir að Ragnheiður Júlíusdóttir hafði leikið Valsliðið grátt í sókn Framara á meðan Sara Sif Helgadóttir varði vel í marki deildarmeistaranna.
Síðari hálfleikurinn fór nokkuð furðulega af stað. Það tók heimakonur heilar tíu mínútur að skora sitt tuttugasta mark í leiknum er vörn Valsliðsins gaf fá færi á sig. Því miður fyrir gestina voru þeir áfram ragir í sóknarleik sínum og skoruðu ekki nema þrjú mörk á þessum kafla, þrátt fyrir að hafa fengið ágætisfæri til að bæta við.
Eftir það var nokkuð jafnræði með liðunum og Valsarar náðu að saxa aðeins á forystuna án þess þó að ógna einhvers konar áhlaupi. Ragnheiður lauk leiknum með níu mörk, þar af þrjú úr vítum, og þá var Steinunn Björnsdóttir drjúg á línunni í liði Fram, skoraði sjö mörk. Hjá Völsurum var Lovísa Thompson markahæst með sjö mörk og Þórey Anna Ásgeirsdóttir næst með sex, þar af þrjú úr vítum. Þá voru markmenn beggja lið drjúgir á köflum, Sara Sif lauk leiknum með 17 varin skot, þar af eitt vítakast, og Margrét Einarsdóttir varði tíu sinnum í liði gestanna.
Valur hefur nú ekki unnið í síðustu fjórum leikjum sínum og situr í 3. sæti með 11 stig, stigi á eftir KA/Þór og þremur á eftir Fram.