Norðankonur unnu í Garðabænum

Ásdís Guðmundsdóttir skoraði sex mörk fyrir KA/Þór í dag.
Ásdís Guðmundsdóttir skoraði sex mörk fyrir KA/Þór í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA/Þór jafnaði við topplið Fram í Olísdeild kvenna í handknattleik í dag er liðið sótti góðan sigur gegn Stjörnunni á útivelli, 27:26, í dag. Fyrr í dag hafði Fram unnið Val á heimavelli og eru nú Framarar og KA/Þór með 14 stig í efstu tveimur sætum deildarinnar.

Norðankonur voru sprækar í upphafi leiks og með sex marka forystu í hálfleik, 18:12, en heimakonur færðu sig upp á skaftið í síðari hálfleik og náðu forystunni um tíma. Liðin voru svo hnífjöfn á lokamínútunum. Helena Rut Örvarsdóttir var markahæst Stjörnunnar með níu mörk og Hanna Guðrún Stefánsdóttir var næst með fimm, þar af tvö úr vítaköstum. Hjá gestunum voru þær Ásdís Guðmundsdóttir og Rut Jónsdóttir báðar með sex mörk.

Stjarnan er í 4. sæti deildarinnar með tíu stig eftir átta leiki en Garðbæingar heimsækja næst HK, 27. febrúar. KA/Þór tekur þá á móti botnliði FH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert