Óvænt úrslit urðu þegar Fram og Selfoss áttust við í Olís-deild karla í handknattleik í Safamýri í kvöld en Framarar höfðu betur 27:25 eftir jafnan leik.
Selfoss er með 11 stig eins og FH og Afturelding í 2.-4. sæti en Fram er nú með 9 stig.
Leikurinn var í járnum svo gott sem allan tímann, munurinn á liðunum var aldrei meiri en tvö mörk. Jafnt var að loknum fyrri hálfleik, 12:12, sem var viðeigandi staða.
Fyrri hluta síðari hálfleiks virtust Selfyssingar líklegri til að landa sigrinum og höfðu þá frumkvæðið. Það breyttist og Fram náði tveggja marka forskoti þegar tíu mínútur voru eftir. Aftur var jafnt, 23:23, þegar sex mínútur voru eftir en Framarar voru sterkari á lokasprettinum og lönduðu sigri.
Selfoss hafði aðeins tapað einum af fyrstu sjö leikjunum en mátti sætta sig við tap í kvöld. Framarar hafa verið öflugir eftir að deildin fór af stað á ný eftir langt hlé og hafa unnið bæði Val og Selfoss á tiltölulega skömmum tíma. Framarar hafa slitið sig vel frá fallbaráttunni með góðum úrslitum að undanförnu.
Bæði lið geta spilað góða vörn og sýndu það á köflum í kvöld. Framarar voru afskaplega skynsamir í sínum aðgerðum. Spiluðu fremur langar sóknir og reyndu að bíða þolinmóðir eftir rétta skotfærinu. Það gekk býsna vel og markaskorið dreifðist vel á milli manna. Þolinmæði þarf til að spila vörn gegn liði sem gefur sér tíma í sóknirnar og kannski var hún ekki alltaf til staðar hjá Selfyssingum.
Mér þykir Sebastian Alexandersson vera að vinna vel úr þeim efniviði sem hann hefur í Safamýrinni. Framarar virðast leggja metnað í að verjast vel og maður tekur eftir að þeir fagna þegar þeir gera vel í vörninni. Slíkt viðhorf veit yfirleitt á gott í íþrótt þar sem vörn og markvarsla skipta gjarnan mestu máli. Leikmennirnir sem spila fyrir utan hjá Fram eru ekki í hópi þeirra flinkustu sem ég hef séð á Íslandsmótinu í gegnum tíðina en þeir voru útsjónarsamir. Sóknirnar voru vel skipulagðar og skiluðu árangri.
Þegar leið á leikinn datt markvarslan nánast alveg niður hjá Selfossi og hafði það líklega mest áhrif á úrslitin. Framarar voru þá gjarnan með annaðhvort eins eða tveggja marka forskot. Svo virtist sem möguleiki væri að skapast fyrir Selfoss þegar Sveinn Aron skoraði úr vítakasti á 58. mínútu og Þorgrímur Smári fékk tveggja mínútna brottvísun hjá Fram. Var staðan þá 26:25 og Selfyssingar virtust þá geta náð stigi út úr leiknum. Þá fóru Framarar í langa sókn sem lauk með því að Stefán Darri Þórsson skoraði úr þröngu færi. Reyndist það síðasta mark leiksins.