Þór frá Akureyri nældi í 18:17-sigur gegn Gróttu í æsispennandi nýliðaslag liðanna í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld.
Gestirnir frá Gróttu voru með nauma forystu lengst af og voru mest tveimur mörkum yfir en aldrei tókst þeim þó að slíta sig frá heimamönnum sem voru aðeins búnir að vinna einn af fyrstu átta leikjum sínum á tímabilinu. Gísli Jörgeen Gíslason skoraði svo sigurmark leiksins á lokamínútunni en hann skoraði þrjú mörk fyrir Þór rétt eins og Arnór Þorri Þorsteinsson. Markahæstur var Ihor Kopyshynskyi með sex mörk.
Með sigrinum fara Þórsarar í fjögur stig, eru áfram í níunda sæti en nú stigi á eftir Gróttu í því áttunda.