Frammistaðan var nóg til að vinna

Jónatan Magnússon, þjálfari KA.
Jónatan Magnússon, þjálfari KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Jónatan Magnússon, þjálfari KA-manna, var himinlifandi eftir sigur sinna manna á ÍBV, en liðin mættust í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Vestmannaeyjum í kvöld.

Sigurmarkið gerði Patrekur Stefánsson þegar fimm sekúndur voru eftir, KA-menn fögnuðu vel og innilega sem var mjög skiljanlegt eftir þennan hörkuleik. Lokatölur voru 28:29 en Eyjamenn voru æfir yfir því að sigurmark KA manna fengi að standa.

„Ég er fyrst og fremst ánægður með útkomuna, þá er ég að tala um niðurstöðuna í þessum leik. Það var það sem við ætluðum að taka úr þessum leik, karakterinn var líka góður, það er það sem ég var ánægðastur með,“ sagði Patrekur en var hann þá ekki ánægður með frammistöðuna?

„Mér fannst við ekki alveg ná okkar leikplani, við vorum í vandræðum varnarlega en náðum að stilla varnarleikinn af fyrir síðustu mínúturnar. Frammistaðan í heild sinni var nóg til að vinna, við vissum að það væri erfitt að spila hérna og það er mjög gaman að geta tekið með sér tvö stig.“

„Við misstum stjórn á leiknum, við vorum að láta dómgæsluna hafa áhrif á okkur, við upplifðum það þannig að við værum of mikið út af, þá misstum við stjórnina. Við náðum svo að koma okkur hægt og rólega inn í leikinn, þetta hefur verið svona hjá okkur, eitt eða tvö mörk og ræðst á síðustu sekúndunum. Nú höfum við verið að ná í stig úr því, ég er ánægður með hve vel við höldum haus á síðustu sekúndunum og það sést að mikið sjálfstraust er í liðinu,“ sagði Jónatan sem var mjög sáttur með sína menn.

Menn spara oft þriðja leikhléið sitt þangað til á lokakaflanum en Jónatan tók það snemma þegar honum sýndist Eyjamenn vera að sigla í burtu með leikinn.

„Það hefði nú verið gott að eiga það í lokin en við þurftum að taka það þarna. Við náðum að endurskipuleggja okkur í því leikhléi, síðustu mínúturnar hefði þetta getað dottið báðum megin en mér fannst við vera klókir. Við brugðumst rétt við á síðustu sekúndunum og það er svo gott að vera þjálfari og sjá það. Við ætluðum að sækja þessi tvö stig og þetta mun gefa okkur mikið sjálfstraust.“

Eyjamenn voru mjög ósáttir með lokasókn KA-manna en þar virtist Patrekur ganga fullvasklega fram er hann reyndi að komast framhjá Arnóri Viðarssyni.

„Þetta var örugglega á gráu svæði, þaðan sem ég stóð sýndist mér hann vera á ferðinni en það voru margir dómar sem liðin voru óánægð með. Ég vil helst ekkert kommenta á síðasta dóminn en við skoruðum og það er það sem skiptir máli, sama hvernig við gerðum það.“

KA-menn hafa verið í mörgum jöfnum leikjum og voru nálægt því að gera fjórða jafnteflið sitt í átta leikjum í kvöld, nú eru lukkudísirnar aðeins með KA-mönnum og það er breyting frá upphafi leiktíðarinnar.

„Við vorum fyrir pásuna að missa leiki, niður í jafntefli eða tap. Núna höfum við verið að ná frábærum karaktersigrum, gegn FH og núna í kvöld. Það er sjálfstraust í liðinu og við höfum trú á konseptinu okkar, nú er stutt á milli leikja og lítill tími til að fagna eða vera niðurlútir. Næstu leikir eru hörkuleikir gegn Val og Þór.“

Mikið handboltaæði virðist vera á Akureyri þessa dagana en Þórsarar eru einnig í Olísdeildinni og það gengur virkilega vel hjá KA/Þór í Olísdeild kvenna.

„Það er mikið handboltaæði hjá okkur, það er rosalega mikill áhugi og þess þá heldur svekkjandi að við getum ekki verið með áhorfendur á leikjunum. Ég veit að það væri fullt út úr dyrum hjá okkur og kvennaliðinu, síðan eru Þórsararnir eru líka þarna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert