Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var augljóslega ekki sáttur við tap sinna manna gegn KA í kvöld en liðin mættust í 8. umferð Olísdeildar karla. Leiknum lauk 28:29 fyrir gestunum en sigurmark þeirra var umdeilt og kom þegar fimm sekúndur voru eftir.
„Ég er samt sem áður nokkuð ánægður með liðið, hvernig við erum að koma í þennan leik og það eru margir ungir strákar sem eru að taka mjög mikla ábyrgð í leiknum. Varnarlega vorum við nokkuð þéttir heilt yfir, ég get ekki verið of mikið að horfa í úrslitin. Það er vafaatriði hérna í lokin sem einhverjir aðrir en við þurfum að dæma um, kannski með réttu hefði þetta átt að enda í jafntefli.“
Eyjamenn þurftu að breyta vörninni sinni nokkrum sinnum og skipta leikmönnum í stöðum í vörninni mjög oft.
„Við erum búnir að missa svolítið af varnarmönnum, Kári er nánast bara í varnarhlutverki í dag og stóð sig mjög vel. Ég get lítið kvartað yfir því en það fór um okkur þegar Arnór meiddist og þá þurftum við að redda okkur í þær mínútur. Liðið var að berjast og allt þetta, við gerðum hlutina eins og við vildum gera þá.“
„Heilt yfir var það sóknarleikurinn á köflum sem var stirðastur hjá okkur, að sama skapi misstum við Ásgeir út þar. Við vorum með Arnór, Dag og Ívar Loga sem þurftu að bera þetta uppi og Gabríel með þeim. Þetta eru ungir og ferskir peyjar sem fá mínútur. Það er gaman að sjá líka.“
Róbert Sigurðarson var rekinn af velli í þriðja skiptið undir lokin og þá versnaði varnarleikur ÍBV mikið.
„Við náðum þá ekki að hvíla leikmenn inn á milli, hann tók hitann varnarlega og er líka mikilvægur upp á að fá hæð í varnarleikinn. Við erum ekki með marga 1,90 eftir þegar Róbert og Kári eru úti. Það var smá vandamál þegar hann datt út.“
Eitt stig í síðustu þremur leikjum hlýtur að vera vandamál fyrir Eyjamenn.
„Kannski upp á stigasöfnun að gera, en það er rosalega erfitt að vera að horfa í það núna miðað við samsetningu hópsins. Við verðum að reyna að passa okkur að horfa í frammistöðuna og reyna að bæta okkur þar, við reynum að tjasla saman hópnum. Við erum núna með tvo 3. flokks gutta í hópinn, við viljum ekki þurfa að ná í marga fleiri,“ sagði Erlingur en hann segist vonast til þess að þurfa ekki að sækja fleiri leikmenn niður í 3. flokkinn.
„Ég vona ekki, við verðum að gefa þessum strákum tíma til að þroskast í sínum flokki á meðan, en við megum vera með sextán á skýrslu, sem er ágætt upp á það að gera en ég held að við komumst nú alveg af með fjórtán,“ sagði Erlingur sem notaði tólf leikmenn í dag, þar af tvo markverði.