Nágrannarnir í FH og Haukum gerðu jafntefli 29:29 í Hafnarfjarðarslag í Kaplarika í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld. Einnig var jafnt að loknum fyrri hálfleik, 15:15.
Haukarnir náðu mest þriggja marka forskoti um tíma í fyrri hálfleik og FH-ingar mest þriggja marka forskoti um tíma í síðari hálfleik. Að öðru leyti var munurinn minni eða þá jafnt á mörgum tölum.
Ef til vill eru FH-ingarnir svekktari. Þeir komust yfir á lokamínútunni en Ólafur Ægir Ólafsson skoraði jöfnunarmarkið úr vítakasti þegar tíu sekúndur voru eftir. Lokamínútan var svolítið skrautleg. Haukar voru manni færri og með boltann þegar tæp mínúta var eftir. Atli Már Báruson tók slakt skot fyrir Hauka og þýski markvörðurinn Phil Döhler skoraði fyrir FH með skoti yfir allan völlinn í opið markið. Kom FH þá yfir 29:28. Haukar virtust aftur vera í hálfgerðu basli í síðustu sókn sinni. Darri Aronsson reyndi skot sem vörnin varði en þá náði Heimir Óli Heimisson að hrifsa til sín boltann á línunni og nældi í vítakastið sem Ólafur skoraði úr.
FH-ingar, leikmanni fleiri, fundu galopinn mann í síðustu sókninni en voru of seinir að athafna sig. Hornamaðurinn Birgir Már Birgisson fékk boltann í dauðafæri en of seint. Hann nýtti færið en markið fékk ekki að standa, réttilega.
Haukar eru nú með 13 stig eins og Afturelding á toppnum og eiga Haukar leik til góða. FH er stigi á eftir með 12 stig í 3. sæti.
Óneitanlega er frábrugðið að skella sér á leik hjá þessum liðum á Íslandsmótinu þegar áhorfendur eru ekki leyfðir. Undir venjulegum kringumstæðum er fullt hús áhorfenda, eða svo gott sem, og andrúmsloftið spennuþrungið. Leikmenn liðanna virtust þó vera vel upplagðir enda ættu menn líklega ekki að þurfa sérstaka hvatningu til að mæta vel stemmdir í leiki FH og Hauka.
Spennan var til staðar í leiknum eins og tölurnar sýna. Bæði lið áttu fína möguleika á að næla í bæði stigin eins og alltaf þegar jafnteflisleikir eru gerðir upp. En á heildina litið tókst FH-liðinu að leika betur. Vörn liðsins var býsna góð á köflum og í sókninni gekk vel að virkja Egil Magnússon sem lék með eftir að hafa misst úr síðustu leiki. Haukarnir voru ekki duglegir að fara út á móti Agli í fyrri hálfleik og skoraði hann þá fjögur mörk með skotum yfir vörnina. Alls skoraði hann 7 mörk í leiknum og það eru góðar fréttir fyrir FH-inga ef Egill getur beitt sér á fullu sem eftir lifir móts.
Hjá Haukum skilaði Geir Guðmundsson svipaðri frammistöðu og skoraði einnig sjö mörk. Geir ógnaði af miklum krafti og þá er erfitt að eiga við hann. Annars var sóknin ekki góð hjá Haukum í þetta skiptið. Liðið lék betur í vörninni í síðari hálfleik og gekk bærilega að halda aftur af Einari Rafni Eiðssyni sem er mikilvægur í sókn FH. Markvarslan hjá liðunum var svipuð þegar uppi var staðið.
Haukar náðu stigi gegn FH á útivelli þótt manni hafi ekki fundist liðið ná sér sérstaklega á strik. Ef til vill segir það eitthvað um styrk liðsins í vetur. Mörg lið í deildinni geta unnið Hauka í einum leik en með þennan leikmannahóp og sigursælan þjálfara verður ekki auðvelt að vinna Haukana í lengri rimmum eins og þeim sem fylgja úrslitakeppninni.
FH-ingar eru að mér finnst á ágætri leið og þegar allir eru heilir er liðið mjög sterkt. Sóknarleikur liðsins er skiljanlega annar þegar Egill Magnússon er með enda kemur hann með annars konar ógnun. En þegar Egils nýtur ekki við finna Einar Rafn og Ásbjörn Friðriksson yfirleitt lausnir í sókninni.