Tandri Már Konráðsson átti mjög góðan leik fyrir Stjörnuna þegar liðið heimsótti Val í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Origo-höllina á Hlíðarenda í níundu umferð deildarinnar í kvöld.
Leiknum lauk með stórsigri Stjörnunnar, 35:27, en Tandri Már skoraði níu mörk fyrir Stjörnuna og lék á als oddi.
Garðbæingar leiddu með sex mörkum í hálfleik, 18:12, og þeir juku forskot sitt hægt og rólega í síðari hálfleik.
Dagur Gautason skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna og Adam Thorsteinsen varði þrettán skot í marki Garðbæinga.
Magnús Óli Magnússon var markahæstur Valsmanna með sex mörk en liðið er í áttunda sæti deildarinnar með 8 stig. Stjarnan er hins vegar komin upp í sjötta sætið í 9 stig.