ÍBV vann nokkuð öruggan 24:18-sigur á HK í Olísdeild kvenna í handknattleik í Vestmannaeyjum í kvöld. Heimakonur lentu undir snemma leiks og voru mest þremur mörkum undir áður en þær sneru taflinu við.
HK komst í 7:4-forystu á tíundu mínútu leiksins en eftir ágæta byrjun gestanna, sem sitja í næstneðsta sæti deildarinnar með tvo sigra það sem af er tímabils, færðu heimakonur sig upp á skaftið. Staðan var 11:10 í hálfleik, ÍBV í vil, en forystan varð svo stærri og stærri eftir hlé.
Markahæstar í liði ÍBV voru Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir með sex mörk og Sunna Jónsdóttir með fimm. Þá varði Marta Wawrzykowska 14 skot af þeim 30 sem hún fékk á sig. Hjá HK skoraði Elna Ólöf Guðjónsdóttir fjögur mörk og Tinna Sól Björgvinsdóttir þrjú. Einnig átti markvörður gestanna fínan leik, Selma Þóra Jóhannsdóttir varði 18 af 42 skotum.
Með sigrinum ná Eyjakonur að lyfta sér frá botnbaráttunni en þær eru nú með níu stig í 6. sæti, fjórum stigum á undan HK.