Ómar Ingi Magnússon átti stórleik fyrir þýska liðið Magdeburg sem vann toppslag C-riðilsins í Evrópudeildinni í handknattleik með 32:30-sigri á útivelli gegn Montpellier í Frakklandi í kvöld.
Með sigrinum er Magdeburg á toppnum með 12 stig, fjórum stigum á undan franska liðinu sem á þó tvo leiki til góða. Ómar Ingi átti sem áður segir stórleik, skoraði tíu mörk í leiknum en Gísli Þorgeir Kristjánsson var ekki með.
Ýmir Örn Gíslason átti góðan leik fyrir þýska liðið RN Löwen sem vann 37:30 sigur á heimavelli gegn ungverska liðinu Tatabánya. Ýmir skoraði fimm mörk fyrir Löwen sem er á toppi D-riðils með 13 stig eftir sjö leiki, fjórum stigum á undan næsta liði.
Annar Íslendingur var á ferðinni í D-riðlinum en Viktor Gísli Hallgrímsson varði mark danska liðsins GOG sem mátti þola tap í Makedóníu gegn Pelister, 32:31. Viktor varði fjögur af 22 skotum þann tíma sem hann var í markinu.
Þá unnu lærisveinar Aðalsteins Eyjólfssonar í svissneska liðinu Kadetten 24:21-sigur á Trimo Trebnie frá Slóveníu. GOG er í 3. sæti D-riðilsins með átta stig og Kadetten sæti neðar með sex stig en á leik til góða.