Petar Jokanovic átti stórleik fyrir ÍBV þegar liðið heimsótti Aftureldingu í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, að Varmá í Mosfellsbæ í tíundu umferð deildarinnar í kvöld.
Leiknum lauk með 34:29-sigri ÍBV en Petar gerði sér lítið fyrir og varði 19 skot í leiknum, þar af tvö vítaskot.
Eyjamenn voru lengi í gang og Mosfellingar skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins.
Hákon Daði Styrmison skoraði fyrsta mark Eyjamanna eftir tæplega fimm mínútna leik og Arnór Viðarsson jafnaði metin í 4:4-eftir tíu mínútna leik.
Mikið jafnfræði var með liðunum eftir það og þau skiptust á að skora. Guðmundur Árni Bragason skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks og Afturelding leiddi með einu marki í hálfleik, 15:14.
Aftureldind byrjaði síðari hálfleikinn betur og náði fljótlega þriggja marka forskoti, 19:16.
Eyjamenn tóku leikhlé, jöfnuðu metin í 19:19, og þeir náðu þriggja marka forskoti 25:22 þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka.
Kári Kristján Kristjánsson kom Eyjamönnum fjórum mörkum yfir, 30:26, þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka og Mosfellingum tókst ekki að koma til baka eftir það.
ÍBV fer með sigrinum upp í fimmta sæti deildarinnar í 11 stig en Afturelding er áfram í öðru sætinu með 13 stig.
Petar Jokanovic var stórkostlegur í liði Eyjamanna í dag og án hans hefðu Eyjamenn verið nokkrum mörkum undir í hálfleik.
Markvörðurinn hélt þeim inn í leiknum þegar sóknarleikurinn var ekki að ganga vel og þá átti hann margar lykilvörslur í síðari hálfleik þegar Mosfellingar gerðu sig líklega til þess að koma sér aftur inn í leikinn.
Heilt yfir var það seiglan og reynslan í ÍBV-liðinu sem sigldi sigrinum í hús því liðið brotnaði aldrei, þrátt fyrir að lenda þremur mörkum undir strax í upphafi síðari hálfleiks.
Mosfellingar litu mjög vel út í fyrri hálfleik og hefðu með réttu átt að vera með afgerandi forystu í hálfleik.
Þeir fóru hins vegar ekki nægilega vel með dauðafærin sín og það reyndist dýrt þegar uppi var staðið.
Eftir frábæra byrjun á síðari hálfleik brotnuðu þeir algjörlega við það að lenda þremur mörkum undir.
Eyjamenn nýttu sér veikleika Mosfellinga sem er fyrst og fremst reynsluleysi. Það var mjög augljóst hvernig Mosfellingar misstu allt sjálfstraust eftir því sem leið á leikinn og það sást best á því að þeir köstuðu boltanum frá sér hvað eftir annað eftir að Eyjamenn náðu yfirhöndinni í leiknum.
Það má ekki gegn jafn góðu hraðaupphlaupsliði og ÍBV og þrátt fyrir frábæra byrjun á mótinu mun það reynst Mosfellingum erfitt að safna stigum í næstu leikjum með marga lykilmenn í meiðslum. Á sama tíma fá yngri leikmenn liðsins afar dýrmæta reynslu í deild þeirra bestu sem mun skila liðinu langt á komandi árum.
Sigurinn var lífsnauðsynlegur fyrir Eyjamenn sem voru án sigurs í síðustu þremur leikjum sínum, fyrir leik kvöldsins, og ungir leikmenn eins og Arnór Viðarsson og Ívar Logi Styrmisson litu virkilega vel út og væru óhræddir við að taka af skarið.