Grótta lyfti sér aðeins frá fallbaráttunni í Olísdeild karla í handknattleik og færði sig jafnframt nær Fram með 30:27-sigri í einvígi liðanna í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi í kvöld.
Það voru Framarar sem voru með yfirhöndina í hálfleik, höfðu 17:16 forystu, en heimamenn sneru taflinu við og voru mest fimm mörkum yfir á endaköflum leiksins. Birgir Steinn Jónsson var markahæstur, skoraði sjö mörk úr níu skotum fyrir heimamenn en Daníel Örn Griffin var næstur í Gróttuliðinu með fimm mörk. Þá var Stefán Huldar Stefánsson drjúgur í markinu, varði 22 af 49 skotum.
Í liði Framara var Vilhelm Poulsen markahæstur með sex mörk úr tíu tilraunum og Andri Már Rúnarsson skoraði fimm mörk úr tíu skotum. Grótta er nú með sjö stig í 10. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Frömurum í 9. sætinu og þremur stigum fyrir ofan Þór Akureyri í 11. sæti.