KA náði jafntefli gegn Val með ævintýralegum lokaspretti

Anton Rúnarsson tekur Patrek Stefánsson föstum tökum í leik KA …
Anton Rúnarsson tekur Patrek Stefánsson föstum tökum í leik KA og Vals í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA og Valur mættust í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Fyrir leik var Valur með tíu stig en KA með níu, bæði lið í þéttum pakka um miðja deildina. Liðunum hafði gengið misvel í síðustu leikjum. KA hafði nælt sér í fimm stig úr síðustu þremur leikjum en Valur var með einn sigur úr síðustu fjórum leikjum. Valsmenn voru yfir nær allan leikinn og voru fimm mörkum yfir þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir og svo fjórum mörkum yfir þegar tvær og hálf mínúta var eftir.

KA-menn gáfust þó aldrei upp og þeim tókst að jafna 27:27 þegar sekúndur lifðu. Valur var með sigurinn læstan inni í brynvörðum bíl að nálgast bankahvelfinguna en brottrekstrar og slæmar sóknir Valsara í lokin gáfu KA færi á að ræna öðru stiginu. 

KA byrjaði leikinn ögn betur og var þá vörnin þeirra drjúg við að verja skot og vinna þannig boltann. Valur komst í gang eftir um tíu mínútur og var varnarleikur þeirra frábær út fyrri hálfleik. Valur byggði upp fimm marka forskot m.a. með því að skora þrisvar í opið mark KA-manna. Staðan var 13:8 skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks en KA skoraði tvö síðustu mörk hálfleiksins og því var staðan 13:10 þegar liðin fengu hvíld. KA tapaði heilum níu boltum í fyrri hálfleiknum og má segja að þar hafi Valsvörnin gert sitt. 

KA var að elta allan seinni hálfleikinn en munurinn var alltaf tvö til fimm mörk. Valsmenn slitu sig loks frá KA og voru, sem fyrr segir með gott forskot þegar styttist í lokaflautið. Það sem gerðist svo á lokamínútunum verða Valsmenn hreinlega að taka á sig. Staðan var 26:21 þegar fimm mínútur voru eftir og Valsmenn voru í sókn. Þeir misstu boltann og KA skoraði. Það sama gerðist í næstu sókn Vals og KA minnkaði muninn í 26:23. Arnór Snær Óskarsson skoraði svo fyrir Val 27:23. Í næstu sókn KA fengu þeir víti og Valsmaður fékk tveggja mínútna refsingu. KA skoraði úr vítinu. Tvær og hálf eftir og staðan 27:24. Valsmenn fóru sér að engu óðslega í næstu sókn og tóku leikhlé. Þjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson lét sér ekki nægja að taka leikhléið heldur jós hann einhverjum fúkyrðum yfir tímavarðaborðið og fékk í kjölfarið tveggja mínútna brottvísun. Valsmenn misstu því leikmann af velli og varð það liðinu dýrt þegar upp var staðið. KA hafði þó bara tæpar tvær mínútur að spila út og tókst það ótrúlega, að jafna leikinn. 

Hrósa verður Valsmönnum fyrir sinn leik. Þeir voru heilt yfir betri og margir ungir og flottir leikmenn sýndu þroskaða frammistöðu í stórum hlutverkum. Helst ber að nefna Þorgils Jón og Einar Þorstein, sem spiluðu virkilega vel í vörninni og Arnór Snæ Óskarsson sem var hvergi banginn í sókninni. Magnús Óli Magnússon og Anton Rúnarsson voru samt atkvæðamestir og Anton sýndi mikið öryggi í vítaköstum sínum. 

Helst ber að hrósa KA fyrir óbilandi trú og varnarleik sem var lengstum öflugur. Enginn leikmaður stóð uppúr en Jóhann Geir Sævarsson skoraði mest. 

Valur og KA misstu Stjörnuna og ÍBV upp fyrir sig í kvöld og sitja liðin í sjöunda og áttunda sæti. 

KA 27:27 Valur opna loka
60. mín. Sigþór Gunnar Jónsson (KA) skoraði mark Svakalegt. Þetta hefur bara varla sést í háa herrans tíð. KA jafnar eftir að hafa verið fimm mörkum undir fyrir rúmum fjórum mínútum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert