Handknattleiksmaðurinn Sveinn Aron Sveinsson er líklega með slitið krossband í hné og verður frá út leiktíðina vegna þessa. Sveinn er uppalinn Valsmaður en hefur leikið með Selfossi á leiktíðinni.
Sveinn meiddist í leik gegn Haukum á föstudaginn var og Handbolti.is greinir frá að líklegast sé um slitið krossband að ræða og verður hornamaðurinn því frá keppni í upp undir ár.
Sveinn hefur skorað 20 mörk í fimm leikjum með Selfossi það sem af er leiktíð. Liðið er í fimmta sæti Olísdeildarinnar með ellefu stig eftir níu leiki.