Mosfellingurinn Elvar Ásgeirsson er genginn til liðs við Nancy sem leikur í næstefstu deild í franska handknattleiknum.
Félagið tilkynnti félagaskiptin í dag en fyrir nokkru var þessi möguleiki til umfjöllunar. Elvar fékk sig lausan frá þýska liðinu Stuttgart og verður því löglegur með Nancy á næstunni sem er í baráttu um að komast upp í efstu deild. Liðið er í fjórða sæti af fjórtán liðum í B-deildinni.
Elvar hélt til Þýskalands sumarið 2019 eftir að hafa leikið með Aftureldingu hér heima. Hann getur leikið hvort heldur sem er sem skytta vinstra megin eða á miðjunni.
Nancy ætti að hljóma kunnuglega fyrir íslenska íþróttaáhugamenn en þar hóf Albert Guðmundsson atvinnumannsferilinn í knattspyrnu, fyrstur íslenskra knattspyrnumanna, sumarið 1947.