Zlatko Saracevic, einn besti handknattleiksmaður Júgóslava og síðan Króata um árabil, er látinn, 59 ára að aldri.
Saracevic var í stóru hlutverki í öflugu liði Júgóslava á milli 1981 og 1991 þar sem hann varð m.a. heimsmeistari með liðinu í Sviss árið 1986 og fékk bronsverðlaun með því á Ólympíuleikunum í Seoul 1988.
Saracevic var síðan í liði Króata sem fékk brons á fyrsta Evrópumótinu í Portúgal árið 1994, fékk silfur á heimsmeistaramótinu á Íslandi árið 1995 og vann gullverðlaunin á Ólympíuleikunum í Atlanta í Bandaríkjunum árið 1996. Hann lék með króatíska landsliðinu til 39 ára aldurs en lék eftir það fyrir landslið Bosníu.
Hann lék með Borac Banja Luka og Medvescak Zagreb í Júgóslavíu en síðan með frönsku liðunum Nimes, Bordeaux, Créteil og Istres, með Badel Zagreb í Króatíu og Veszprém í Ungverjalandi en hann lagði skóna á hilluna árið 2003, þá 42 ára gamall, eftir að hafa lokið ferlinum með Zamet Crotek í Króatíu.
Þar hóf Saracevic síðan þjálfaraferilinn og stýrði liðum í Ungverjalandi, Bosníu og Króatíu til dauðadags en hann þjálfaði frá árinu 2018 kvennalið Podravka Koprivnica sem leikur í Meistaradeildinni í vetur og er efst í króatísku deildinni.
Saracevic fékk hjartaáfall eftir leik liðsins um helgina og var samkvæmt króatískum fjölmiðlum að keyra markverði liðsins heim að leik loknum þegar hann leið út af eftir að hafa stöðvað bifreiðina við umferðarljós. Markvörðurinn hringdi þegar í stað á sjúkrabíl en lífgunartilraunir á sjúkrahúsinu í Koprivnica báru ekki árangur. Saracevic lætur eftir sig eiginkonu og tvö börn.